Þúsundir hafa sýkst af myglusveppi á síðustu vikum í Indlandi í kjölfar sívaxandi útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi. Ofnotkun á sterum til þess að meðhöndla kórónuveirusmit hefur verið kennt um útbreiðslu sýkingarinnar.
Myglusveppurinn var áður talinn afar sjaldgæfur og fannst í raun aðeins í fólki með skert ónæmiskerfi. Þannig greindust aðeins um 20 tilfelli á Indlandi í fyrra en nú hafa greinst nokkur þúsund tilvik um allt Indland. Níu héruð í Indlandi hafa lýst ástandinu sem faraldri og hafa sérstakar álmur á sjúkrahúsum verið opnaðar fyrir fólk sem hefur sýkst af myglusveppinum.
Myglusveppurinn heitir „Mucormycosis“, er árásgjarn á líffæri sjúklinga og þurfa skurðlæknar stundum að fjarlæga augu, nef og jafnvel kjálka til þess að stöðva útbreiðslu hans áður en hann sýkir heilann. Um það bil helmingur þeirra sem sýkjast af myglusveppnum látast af völdum hans.
„Notkun á sterum hefur aukist til muna og hafa þeir verið notaðir of frjálslega,“ segir K. Srinath Reddy, prófessor frá lýðheilsustofnun Indlands.
Hann segir einnig að óhreint vatn í súrefnisdælum sjúklinga og rakatæki í herbergjum þeirra búi til tilvalið umhverfi fyrir myglusveppinn til þess að vaxa og breiða úr sér.