Kjósendur í fimm strjálbýlum sýslum Oregon-ríkis í Bandaríkjunum hafa greitt atkvæði með því að yfirgefa Oregon og renna saman við Idaho-ríki. Þetta er nýjasta útspil íhaldsmanna í ríkinu sem líkar ekki við stjórnvöld ríkisins og telja þau halla of langt til vinstri. Washington Post greinir frá þessu.
Pólitíski þrýstihópurinn Borgarar fyrir Stór-Idaho (Citizens for Greater Idaho) stendur á bak við atkvæðagreiðsluna, sem telur að íbúum sýslanna væri betur borgið í Idaho.
Í umfjöllun Washington Post er talið að þessi ákvörðun endurspegli pólitísku sundrungina á milli strjálbýlisins annars vegar og stærri borga Oregon hins vegar, sem hefur einkennt stjórnmálabaráttu ríkisins síðustu árin.
Ólíklegt þykir að eitthvað verði úr þessum áætlunum en margar hindranir liggja á leið vongóðra framtíðaríbúa Idahoríkis. Ríkisþing Oregon og Idaho þurfa bæði að samþykkja breytinguna, sem og ríkisstjórar þeirra og Bandaríkjaþing. Óvíst er hvort nægilegur stuðningur sé á meðal ríkisþings eða ríkisstjóra Oregon til þess að rætist úr ákvörðun kjósendanna.