Lestarstjóra refsað vegna klósettferðar

„The Shinkansen“, sem er háhraðalestakerfi Japana.
„The Shinkansen“, sem er háhraðalestakerfi Japana. AFP

Japanskur lestarstjóri á yfir höfði sér refsingu vegna þess að hann yfirgaf stjórnunarklefa lestarinnar til þess að fara á salernið.

Lestarstjórinn óheppni, hefði líklega komist upp með þessa óleyfilegu klósettferð ef ekki hefði verið fyrir það að lestin kom einni mínútu of seint á leiðarenda. Var þá hafin rannsókn vegna seinkunarinnar, þar sem óásættanlegt er fyrir lest að vera of sein í Japan. 

Lestarstjórinn hafði beðið starfsmann í áhöfninni, sem var ekki með tilskilin réttindi, að stjórna lestinni á meðan hann skrapp afsíðis á klósettið, en lestin var á um 150 km/klst hraða. Lestarstjórinn hafði fengið slæma magaverki og þurfti af brýnni nauðsyn að fara á salernið, segir í frétt BBC.

„Þetta var ótrúlega óviðeigandi af honum og við biðjumst afsökunar,“ segir Masahiro Hayatsu, háttsettur embættismaður JR Central, lestarfélagsins sem rekur hraðlestirnar.

Reglur fyrirtækisins segja að ef lestarstjóri verður skyndilega veikur eða þarf að skreppa afsíðis, verður hann að láta stjórnstöð fyrirtækisins vita. Einnig stendur að starfsmaður í áhöfn má taka við stjórn lestarinnar en aðeins ef hann er með tilskilin réttindi.

Japanir eru frægir fyrir afkastamikið lestarkerfi sem gilda strangar reglur um og eru lestarslys ákaflega sjaldgæf. Aldrei hefur komið fyrir slys í 57 ára sögu „The Shinkansen“, sem er háhraðalestakerfi Japana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert