Tinder veitir bólusettum fríðindi

Bráðlega munu notendur stefnumótasmáforrita geta skráð bólusetningarstöðu sína á prófílum …
Bráðlega munu notendur stefnumótasmáforrita geta skráð bólusetningarstöðu sína á prófílum sínum. AFP

Forsvarsmenn níu vinsælustu stefnumótasmáforrita heimsins komu saman í Hvíta húsinu á föstudag til að leggja sitt á vogarskálarnar í baráttunni við Covid-19.

Bráðlega munu notendur stefnumótasmáforritana Tinder, Hinge, Match, OkCupid, BLK, Chispa, Plenty of Fish, Bumble og Badoo geta birt bólusetningarstöðu sína á prófílum sínum.

Þegar kemur að þeim einstaklingum sem eru í ástarleit er ávinningur bólusetningar ekki aðeins heilsufarslegur, segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

„Samkvæmt rannsókn OKCupid, hljóta þeir notendur sem nú þegar hafa verið bólusettir eða hyggjast fara í bólusetningu 14% meiri samsvörun (e. match) en þeir sem hyggjast ekki fara í bólusetningu,“ kemur fram í tilkynningunni.

Sem hvatningu hefur Tinder ákveðið að bjóða bólusettum notendum sínum upp á aðgengi að auka valmöguleikum í forritinu án endurgjalds. Meðal þessara valmöguleika er hið vel þekkta „super-like“. Vanalega þyrftu notendur að greiða fyrir auka valmöguleika af þessu tagi.

„Þessi fyrirtæki hafa svarað kalli forsetans með því að stíga fram, hvetja og upplýsa bandaríkjamenn um mikilvægi bólusetninga,“ segir í tilkynningunni.

Rúmlega 60% fullorðinna einstaklinga í Bandaríkjunum hafa verið bólusettir í það minnsta einu sinni við Covid-19 og er stefnt að því að ná að bólusetja yfir 70% fullorðinna í byrjun júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert