Að minnsta kosti 100 smitaðir á Everest

Frá grunnbúðum Everest.
Frá grunnbúðum Everest. AFP

Að minnsta kosti 100 fjallgöngumenn og starfsmenn á Everest eru smitaðir af kórónuveirunni, að sögn leiðsögumanns á svæðinu. Yfirvöld í Nepal hafa neitað því að hópsmit sé til staðar á Everest. 

Lukas Furtenbach leiðsögumaður segir að hans útreikningar séu byggðir á tölum frá björgunarsveitum, læknum, og leiðsögumönnum. Furthenbach ræddi við AFP í dag, viku eftir að hann frestaði för sinni á Everest vegna ótta um smit. Þá höfðu nokkur smit komið upp í hópi leiðsögumanna. Sömuleiðis hafði Furtenbach séð veikt fólk í grunnbúðunum og heyrt fólk hósta í tjöldum sínum. 

Alls fengu 408 erlendir fjallgöngugarpar leyfi til þess að klífa Everest þetta tímabilið. Þeir njóta þjónustu nokkur hundruð nepalskra leiðsögumanna sem hafa dvalið í grunnbúðum Everest síðan í aprílmánuði. Í lok apríl varð norskur fjallgöngumaður sá fyrsti sem greindist smitaður af kórónuveirunni í grunnbúðum Everest. 

Hálf milljón smita frá upphafi

Göngutímabilinu lýkur í lok maímánaðar. Ekkert fjallgöngutímabil var á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins. 

Í gær greindust tæplega 9.000 Covid-19 smit í Nepal og voru 177 dauðsföll tilkynnt. Alls hafa um 497.000 smit greinst í Nepal frá upphafi faraldurs. Heilbrigðiskerfið í Nepal á í miklum erfiðleikum með að takast á við álagið sem faraldurinn hefur í för með sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert