Fjarstýrði könnunarjeppinn Zhurong, sem Kínverjar lentu á Mars í síðustu viku, hefur nú keyrt niður af lendingarhylkinu og tekið sinn fyrsta rúnt um yfirborð plánetunnar.
Það þýðir að Kína er nú annað land af tveimur sem hafa lent og stýrt rannsóknarfari af þessu tagi á Mars, en Bandaríkjamenn hafa afrekað það fimm sinnum áður. Zhurong-jeppinn mun rannsaka yfirborðsjarðveg og andrúmsloft plánetunnar. Þá mun hann leita að merkjum um einhvers konar líf á plánetunni, þ.á m. vatni og ís.
Jeppinn, sem er 240 kg, er drifinn áfram með sólarorku og heitir eftir kínverskum eldguði. Hann mun kanna rúmlega 3.000 km breiða dæld á norðanverðri plánetunni sem sumir vísindamenn halda að hafi verið haf fyrir langalöngu.
Kínverska geimstofnunin segir Zhurong hannaðan til að starfa á plánetunni í 92 jarðardaga, sem samsvarar 90 marsdögum.