Íbúar Austur-Kongó flýja eldgos

AFP

Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín eftir að eldgos hófst í eldfjallinu Nyiragongo nærri borginni Goma í Austur-Kongó. Verulega hefur dregið úr virkni gossins síðan það hófst í nótt. 

Um tvær milljónir búa í Goma. 

Hrauntaumar úr fjallinu flæddu að flugvelli borgarinnar áður en hægja tók á rennslinu. Nyiragongo gaus síðast árið 2002. Þá létust 250 og 120 þúsund misstu heimili sín. 

Íbúar hafa flúið að landamærum Rúanda eða í hverfi í meiri hæð í Goma. Yfirvöld í Rúanda telja að þrjú þúsund manns hafi þegar komið yfir landamærin frá Austur-Kongó. Fjölmargir tóku með sér dýnur og aðrar eigur og yfirgáfu Goma áður en tilkynning um gosið barst frá yfirvöldum, nokkrum klukkustundum eftir að gosið hófst. 

Hraun rennur í nágrenni Goma.
Hraun rennur í nágrenni Goma. AFP

„Ég fór út og sá að himinninn var rauður. Ég er svo áhyggjufullur, svo áhyggjufullur. Ég upplifði erfiðleikana með þetta eldfjall 2002. Eldfjallið eyðilagði heimili okkar og eigur. Þess vegna er ég svona hræddur núna,“ segir Richard Bahati, íbúi Goma, við BBC. 

„Allir eru hræddir, fólk er að flýja. Við vitum virkilega ekki hvað við eigum að gera,“ segir Zacharie Paluku við AP. 

Rafmagnslaust er víða í borginni og hraun flæddi yfir þjóðveginn frá Goma til borgarinnar Beni. Þá hefur einnig verið greint frá jarðskjálftum á svæðinu. 

Yfirvöld telja gosið nú svipað því sem varð árið 2002 og biðluðu til íbúa í nágrenni flugvallarins í Goma að yfirgefa heimili sín án tafar. 

Íbúar bera eigur sínar á götum Goma og leita að …
Íbúar bera eigur sínar á götum Goma og leita að öruggu skjóli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert