Langdræg lyklaborð

Kim Jong-un er ákaflega stoltur af hakksveit norðurkóreska ríkisins.
Kim Jong-un er ákaflega stoltur af hakksveit norðurkóreska ríkisins. AFP

Hermt er að einungis um 1% norðurkóresku þjóðarinnar hafi aðgang að netinu. Í því ljósi er merkilegt að stjórnvöld í Norður-Kóreu búi yfir einhverri skilvirkustu sveit hakkara í þessum heimi, að því er New Yorker heldur fram. „Við fyrstu sýn er það hrein firra – eins og að Jamaíka ynni gull í bobbsleðakeppni Ólympíuleikanna – en netógnin frá Norður-Kóreu er raunveruleg og vaxandi,“ segir í fréttaskýringu blaðsins. Þar kemur einnig fram að norðurkóreski herinn sé undir þungum netvopnum, ekkert síður en sá bandaríski. Upplýsingum sé safnað án afláts. Hvaðanæva.

Þannig stálu herkóðarar í Pyongyang meira en tvö hundruð gígabætum af gögnum frá suðurkóreska hernum árið 2016, þar á meðal öllum upplýsingum um það hvernig hugsanlegt stríð milli þessara frændþjóða myndi leggja sig. Þar var enn fremur að finna vangaveltur um að vængstífa Norður-Kóreu með því að ráða einvaldinn Kim Jong-un af dögum. Sá hefur kjamsað á því efni.

Ekki nóg með það. Norður-Kórea er eina þjóðríkið í heiminum sem stundar það, svo vitað sé, að hakka sig kinnroðalaust inn hér og þar í fjáröflunarskyni. Sveit manna innan leyniþjónustunnar er sérþjálfuð til þess arna og hefur Kim Jong-un haft um hana stór orð, sem dæmi kallað þessa hakkara „vígamenn“ sína og sagt þá gegna lykilhlutverki þegar kemur að því auka styrk og velmegun ríkisins – sem honum þykir víst ekki lítil fyrir.

Meira púður í lyklaborðunum

Netglæpir Norður-Kóreumanna eru af ýmsu tagi, allt frá hreinum og klárum bankaránum yfir í spellvirki á kerfum og þjófnaði á dulkóðunargjaldmiðli í netviðskiptum. Bent hefur verið á að meira púður sé í lyklaborðum ríkisins en byssum þess og öðrum hefðbundnari vopnum. Ólíkt skipulögðum hryðjuverkahópum gangast netglæpamenn í Norður-Kóreu yfirleitt ekki við gjörðum sínum og stjórnvöld svara bara trippunum fram á dal, þannig að sérfræðinga greinir stundum á um það hvar ábyrgðin í raun og veru liggi. Fyrir tveimur árum áætlaði þó nefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu að ríkið hefði aflað tveggja milljarða Bandaríkjadala, það er 246 milljarða króna, með netglæpum. Síst er talið að dregið hafi úr þeirri starfsemi síðan.

Að dómi SÞ hafa yfirvöld í Pyongyang meðal annars nýtt þetta illa fengna fé til uppbyggingar hersins og þróunar kjarnaflauga, sem er heimsbyggðinni þyrnir í augum. Einnig hefur féð vegið upp á móti tjóninu af langvarandi refsiaðgerðum sem alþjóðasamfélagið hefur beitt ríkið á umliðnum áratugum vegna stjórnarfarsins í landinu. 

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert