Faraldur kórónuveiru er á niðurleið á Indlandi, ef horft er til daglegra smita, og segir sendiherra Indlands á Íslandi að önnur bylgja smita sem skall á Indlandi sýni mikilvægi þess að bólusetja alla heimsbyggðina gegn Covid-19, ekki einungis hluta hennar. Þá segir hann Indverja þakkláta fyrir aðstoð heimsbyggðarinnar, aðstoð sem meðal annars kom frá Íslandi.
Önnur bylgja faraldursins á Indlandi er talin hafa byrjað í febrúarmánuði. Í mars og apríl ruku smittölur upp úr öllu valdi og varð vart við skort á súrefni fyrir Covid-19-sjúklinga sem á því þurftu að halda. Frá 7. maí síðastliðnum hefur daglegum smitum stöðugt fækkað. 240.000 smit greindust á Indlandi í gær. Tölur yfir andlát hafa þó ekki dregist saman en rúmlega 3.500 manns létust úr Covid-19 á Indlandi í gær.
„Það var óheppilegt að önnur bylgja kórónuveirufaraldursins hafi komið upp á Indlandi en ef þú horfir á þetta á heimsvísu hafa mörg lönd glímt við bylgju eftir bylgju. Þessi hræðilega bylgja sem kostaði mannslíf fékk heiminn til að átta sig á því að þar til við bólusetjum alla heimsbyggðina munu stökkbreytingar koma upp sem geta valdið fjölgun smita. Bylgjan hvatti heiminn til þess að koma saman og berjast enn harðar við faraldurinn,“ segir T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi, í samtali við mbl.is. Hann harmar þær afleiðingar sem önnur bylgja hafði í för með sér.
Vonir standa til þess að daglegum smitum hafi fækkað verulega áður en júnímánuður hefst eftir um það bil viku. Sendiherrann segir að staðan sé misjöfn eftir svæðum á Indlandi en almennt sé hún betri en áður. Íslendingar gáfu Indverjum 17 öndunarvélar fyrr í maímánuði vegna stöðunnar þar.
„Við erum mjög þakklát fyrir aðstoðina frá heimsbyggðinni, þar á meðal frá Íslandi,“ segir Changsan.
Spurður um bólusetningar segir hann þær ganga vel á Indlandi en landið er einn stærsti framleiðandi bóluefna á heimsvísu. Framleiðslugetan eykst stöðugt og segir Changsan vonir standa til þess að 100 milljónir skammta verði framleiddar mánaðarlega bráðlega.
„Með hverjum mánuðinum eykst framleiðslugeta bóluefnaframleiðendanna,“ segir Changsan.
„Það þarf að útrýma Covid, það nægir ekki að bólusetja hluta heimsbyggðarinnar því þá getur veiran stökkbreytt sér og orðið til þess að smitum fjölgar og erfiðara er að fást við hana.“
Changsan segir að stjórnvöld á Indlandi taki faraldrinum alvarlega og hafi lært af því sem gerðist í annarri bylgju. Víðtækar skimanir fara nú fram víða um landið og verða hraðpróf brátt í boði. Þá er nýtt lyf við Covid-19 á Indlandi komið langt í þróun.
„Við erum að undirbúa okkur enn betur ef enn ein bylgjan skyldi skella á,“ segir Changsan og bætir við:
„Ekkert heilbrigðiskerfi getur höndlað svona mörg smit. Ekki einu sinni heilbrigðiskerfi ríkustu landa í heimi gætu tekist á við svona hátt hlutfall smitaðra.“