Ríkisfjölmiðill Hvíta-Rússlands ver ákvörðun stjórnvalda um að nota herþotu til þess að þvinga flugvél til lendingar á flugvellinum í Minsk, ákvörðun sem leiðtogar á Vesturlöndum hafa fordæmt.
Það var um miðjan dag í gær sem flugvél Ryanair, á leið frá Grikklandi til Litháen, var snúið af leið í hvítrússneskri lofthelgi og fyrirskipað að lenda í höfuðborginni Minsk. Um borð í vélinni var blaðamaðurinn og stjórnarandstæðingurinn Roman Protasevich og var hann handtekinn við komuna til Minsk.
Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi halda því fram að neyðarlendingin hafi verið framkvæmd vegna sprengjuhótunar, sem reynst hafi fölsk og að ekki hafi verið vitað að Protasevich væri um borð.
Ráðamenn á Vesturlöndum hafa fordæmt framferði Hvít-Rússa og krafist skýringa frá stjórnvöldum og viðbrögðum Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Meðal þeirra sem tjá sig um málið er Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en í færslu á Twitter krefst hann þess að Pratasevich verði samstundis sleppt úr haldi.
Í sama streng tekur Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sem segir þetta brot á alþjóðalögum sem verði að hafa afleiðingar.
Svetlana Tsjíkhanovskaja, helsti stjórnarandstæðingur landsins, sagði í yfirlýsingu í gær að hér með væri ljóst að enginn sem flýgur yfir Hvíta-Rússland væri öruggur.
„Tími yfirlýsinga er liðinn. Nú þurfa Hvít-Rússar að grípa til aðgerða með hjálp alþjóðasamfélagsins. Flugránið er dæmi um það sem einræðisstjórnin hefur komist upp með án afleiðinga,“ sagði Tsjíkhanovskaja, sem bauð sig fram gegn forsetanum Alexander Lúkasjenkó í kosningum í fyrra.