Breyttu árbókarmyndum stúlkna

Útskrift úr bandarískum menntaskóla.
Útskrift úr bandarískum menntaskóla. AFP

Menntaskóli í Flórída í Bandaríkjunum hefur verið gagnrýndur fyrir að breyta árbókarmyndum 80 kvenkynsnemenda með því að hylja bæði axlir þeirra og bringu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Ástæðan fyrir breytingunum mun hafa verið sú að myndirnar brutu gegn reglum um klæðaburð en reglurnar segja að klæðnaður stúlknanna skuli vera hógvær.

Gagnrýnendur bentu þó á að árbókarmyndum af karlkyns nemendum hefði ekki verið breytt þrátt fyrir að sömu reglur væri brotnar.

Að sögn nemendanna voru breytingarnar, sem gerðar voru í myndvinnsluforriti, ekki gerðar með leyfi nemendanna. Þá segja nemendurnir breytingarnar óþægilegar og hafa sakað skólann um kynjamisrétti.  

„Tvöfaldur staðall (e. double standard) í árbókinni er sá að þau horfðu á líkama okkar og héldu að ef það sæist í örlítið bert hold væri það kynferðislegt,“ sagði Riley O'Keefe, 15 ára nemandi við Bartram Trail-menntaskólann, við CBS-fréttastofuna og bætti við:

„En svo horfðu þau á strákana, á ljósmyndir sem teknar voru í sundi og á aðrar íþróttamyndir, og þeim fannst þær í lagi og það er virkilega pirrandi og óþægilegt.“

Í reglunum um klæðaburð segir að bolir og skyrtur stúlkna skuli þekja allar axlirnar og velsæmis verði að gæta í klæðaburði. Þá má klæðnaðurinn hvorki vera truflandi né sýna of mikið. Auk þess mega nemendur ekki vera of mikið málaðir og öfgafull hárgreiðsla er ekki leyfð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert