Frank Even Hagen, tæplega sextugur og fullbólusettur norskur hjúkrunarfræðingur, líkir viðtökunum á höfuðborgarflugvellinum Gardermoen við handtöku þegar hann kom úr heimsókn til Danmerkur á miðvikudaginn.
Hagen situr nú á sóttkvíarhóteli í nágrenni flugvallarins eftir að hafa engu tauti komið við lögreglu sem tók á móti honum á flugvellinum. Hjúkrunarfræðingurinn starfar á sjúkrahúsinu í Førde í Sunnfjord í Vestland-fylki. Hann skrapp til Danmerkur í fimm daga til að heimsækja veikan ættingja sinn og kveðst því, í samtali við norska dagblaðið VG, ekki líta á för sína sem ónauðsynlegt ferðalag.
Reiknaði Hagen með að fá að sitja í sóttkví á heimili sínu í Førde þar sem hann er í fríi fram á föstudag, en í mars kvað Bent Høie heilbrigðisráðherra upp þann úrskurð, að bólusett heilbrigðisstarfsfólk gæti mætt beint til starfa við komu til landsins, en þyrfti þó að halda vikulanga sóttkví í frítíma sínum.
„Lögreglan á Gardermoen notaði ekki langan tíma til að fara gegnum pappírana mína frá sjúkrahúsinu. Ég mátti ekki hringja í neinn til að segja frá því hvað væri að gerast. Mér var bara tjáð að ákvörðunin væri tekin,“ segir Hagen af viðtökunum á miðvikudaginn.
Öryggisverðir hafi svo tekið við honum og fært hann á sóttkvíarhótelið þar sem hann situr nú, bitur og sár. „Ég upplifi þetta eins og ég hafi verið handtekinn og sé hafður í haldi,“ segir hjúkrunarfræðingurinn, en auk þess að vera fullbólusettur gekkst hann undir kórónuveirupróf í Danmörku, áður en hann hélt til baka til Noregs, og svo aftur á Gardermoen-flugvellinum við komuna.
„Ég kom aðeins fyrr heim en ég hafði ætlað mér, ætlaði að vera alveg viss um að niðurstaða úr veiruprófinu sem ég hefði átt að fara í á vegum vinnustaðarins á fimmtudaginn lægi fyrir tímanlega áður en ég færi á vakt,“ segir Hagen að lokum, en af því prófi verður ekki þar sem hann er nú gegn eigin vilja vistaður á hóteli við Gardermoen þar sem honum er ætlað að dvelja í sjö daga.
Frá sveitarfélaginu Ullensaker, en þar er Gardermoen-flugvöllurinn og einnig sóttkvíarhótelin, fékk Hagen þau svör, þegar hann bar upp kvörtun sína, að þar sem ekki væri hægt að líta á ferðalag hans til Danmerkur sem nauðsynlegt nyti hann ekki undanþágu frá reglum um sóttkví á hóteli í stað eigin heimilis.