Fimm ára drengur berst nú fyrir lífi sínu á Citta della Salute-spítalanum í Torino á Ítalíu. Drengurinn komst einn lífs af í slysinu sem varð í fjöllum Ítalíu í gær.
Fjórtán létust í slysinu þegar kláfur hrapaði 20 metra niður hlíð fjallsins Mottarone í gær. Þar á meðal voru foreldrar drengsins, amma hans og afi og tveggja ára systkini. Rannsókn á slysinu er hafin.
Drengurinn litli er enn á gjörgæslu en læknar vonast til þess að ástand hans batni á næsta sólarhringnum. Hann og eitt annað níu ára gamalt barn lifðu fallið af og voru flutt á spítala. Eldra barnið lést við komuna á spítalann.
„Hann er enn inni á gjörgæsludeild, í öndunarvél og verkjastilltur. Á morgun munu læknar reyna að vekja hann hægt og rólega og eru þeir vongóðir en þó með fyrirvara,“ sagði talsmaður Citta della Salute-sjúkrahússins við APF.