Tvö börn og tólf fullorðnir voru skotin til bana nálægt kókaplönturæktunarsvæði í Perú í gær. Herinn í Perú greindi frá skotárásinni og segir hana vera á ábyrgð skæruliðahópsins Skínandi stígs.
Skotárásin er talin geta aukið enn spennuna í aðdraganda forsetakosninga í Perú en frambjóðendurnir Keiko Fujimori og Pedro Castillo hafa tekist á í harðnandi kosningabaráttu undanfarnar vikur.
Fórnarlömbin voru skotin til bana í San Miguel del Ene-dalnum þar sem mikið er um ræktun á kókaplöntunni. Dalurinn er yfirráðasvæði Skínandi stígs.
Kókaín er unnið úr kókaplöntunni og er Perú einn stærsti framleiðandi kókalaufa í heiminum ásamt Kólumbíu og Bólivíu.
Forseti landsins, Francisco Sagasti, fordæmdi morðin á Twitter, sendi herlið auk lögreglu á svæðið og sagði í kveðju sinni til herliðsins að leyfa árásarmönnum ekki að komast upp með morðin. Sérhæfð sveit sem berst gegn hryðjuverkum rannsakar nú morðin.
Condeno y repudio enérgicamente el asesinato de 14 personas en el Vraem. He ordenado el despliegue de patrullas de las FFAA y la @PoliciaPeru en la zona, para que esta acción terrorista no quede impune. (1/1)
— Francisco Sagasti (@FSagasti) May 24, 2021