Frakkar vilja fíkniefnanotkun upp á borðið

Damino David, söngvari Måneskin.
Damino David, söngvari Måneskin. AFP

Clement Beaune, Evrópuráðherra Frakklands, kallaði í dag eftir algjöru gagnsæi vegna fíkniefnaprófs sem ítalski sigurvegari Eurovision hefur samþykkt að undirgangast eftir vangaveltur um meinta kókaínnotkun hans í bakherberginu í beinni útsendingu.

Damino David, söngvari hljómsveitarinnar Måneskin sem bar sigur úr býtum í Eurovision á laugardag, hefur neitað því að hann noti fíkniefni og boðist til að undirgangast fíkniefnapróf við komuna til Ítalíu. 

Í viðtali við RMC-útvarpsstöðina segir Beaune, Evrópuráðherrann franski, að reynist fíkniefnaprófið jákvætt gæti það verið grunvöllur fyrir ógildingu sigurs Ítala. Frakkar voru í öðru sæti keppninnar. 

„Ég tel að það megi ekki vera neinum efa undirorpið. Við þurfum algjört gegnsæi,“ sagði Beaune, sem sjálfur sótti keppnina í Rotterdam, við RMC-útvarpsstöðina.

Hann segir að vandamál og viðurlög séu vel skilgreind í reglum keppninnar og að kveðið sé á um, meðal annars, ógildingu sigra. 

Bundu vonir við sigur

Frakkar bundu miklar vonir við framlag sitt í keppnina, lagið Voila flutt af Barböru Pravi, og stóðu vonir til þess að hún byndi enda á 44 ára eyðimerkurgöngu Frakka í keppninni.

Beaune segir í viðtalinu að hann vilji ekki vera tapsár en það sé ekki hægt að líða hegðum eins og David er nú sakaður um. 

Þó hefur hópstjóri Eurovision-hóps Frakka, Felix þeirra í Frakklandi, sagt að þau muni ekki óska eftir að niðurstöðurnar verði endurskoðaðar undir neinum kringumstæðum. 

Pravi sjálf sagði í viðtali við France 2 television að Ítalir hafi verið kosnir bæði af dómnefnd og almenningi, hvað sem svo færi fram eftir sigurinn, hvort sem það væri fíkniefnaneysla eða að þeir væru í brókunum öfugum, kæmi henni ekki við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert