Fimmtán eru látnir og hundraða saknað í Austur-Kongó eftir hraunrennsli úr eldfjallinu Nyiragongo sem tók að gjósa á fimmtudag.
Um 5.000 íbúar borgarinnar Goma, sem er í um tíu kílómetra fjarlægð, hafa flúið yfir landamærin til Rúanda. Um tvær milljónir búa í borginni en hundruð húsa í úthverfi hennar urðu hrauninu að bráð.
Fréttaveitan AP hefur eftir UNICEF að yfir 170 barna sé saknað en samtökin hafa komið upp sérstökum hjálparmiðstöðvum til að aðstoða börn sem hafa orðið viðskila við foreldra sína.
Nítján ár eru síðan eldfjallið gaus síðast en þá létust 250 manns og 120.000 misstu heimili sín. Borgarbúar byrjuðu að rýma borgina áður en opinber tilkynning kom frá yfirvöldum þess efnis.