Óttast að Protasevich sæti pyntingum

Fjölskylda hvítrússneska blaðamannsins Romans Protasevich óttast að hann kunni að verða pyntaður af stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi eftir að hann var handtekinn þegar flugvél sem hann var farþegi í var þvinguð til lendingar í Minsk.

Í frétt á vef BBC kemur fram að faðir Romans, Dmitri Protasevich, hafi miklar áhyggjur af meðferð yfirvalda á syni hans. „Við vonum að hann muni þola þetta. Við verðum hrædd bara við að hugsa um þetta, en það er mögulegt að hann hafi verið barinn og pyntaður. Við erum hrædd um það,“ sagði Dmitri.

„Þetta er eitthvað sem á ekki að vera að gerast í miðri Evrópu á 21. öldinni. Við vonum að allt alþjóðasamfélagið, þar á meðal Evrópusambandið, setji fordæmalausan þrýsting á yfirvöld. Við vonum að sá þrýstingur beri árangur og yfirvöld átti sig á því að þau hafi gert afar stór mistök,“ hefur BBC eftir föðurnum.

Segist við góða heilsu

Stjórnvöld birtu í dag myndband af Roman þar sem hann kvaðst vera við góða heilsu og virtist játa þau brot sem honum eru gefin að sök í Hvíta-Rússlandi. Þau brot fela m.a. í sér að hafa skipulagt mótmæli gegn Alexander Lúkasjenkó, forseta landsins.

Aðgerðasinnar í Hvíta-Rússlandi segja játningu Protasevich ekki ósvikna, þar sem hann hafi einfaldlega verið látinn játa.

Krafist er lausnar Prota­sevich.
Krafist er lausnar Prota­sevich. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert