Veiran snýr aftur til Færeyja

Hópsmit er komið upp í Færeyjum.
Hópsmit er komið upp í Færeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Samkomum hefur verið aflýst víða um Færeyjar í morgun vegna hópsmits sem komið hefur upp í eyjunum. Sextán kórónuveirusmit greindust í gær, en áður höfðu sjö smit greinst á nokkrum dögum og voru það þau fyrstu sem greinast innanlands í yfir tvo mánuði.

Öllum knattspyrnuleikjum hefur í kjölfarið verið aflýst um óákveðinn tíma og engar messur verða í dag þótt ærið sé tilefnið.

Staða faraldursins í Færeyjum hefur verið góð um allnokkurt skeið og hafa samkomutakmarkanir í eyjunum miðast við 500 manns síðustu vikur.

Færeyjar og Grænland eru einu löndin á grænum lista heilbrigðisyfirvalda á Íslandi, en í því felst að farþegar frá löndunum sæta engum takmörkunum við komuna til landsins og þurfa ekki að fara í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert