Boðið fé fyrir að hallmæla Pfizer

AFP

Mikil umræða hefur átt sér stað í frönskum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum í dag vegna dularfulls tilboðs til áhrifavalda og YouTube-stjarna um að hallmæla bóluefni Pfizer-BioNTech við Covid-19 gegn greiðslu.

Þeir sem hafa fengið tilboðið eru virkir á heilbrigðis- og vísindasviðinu. Þeir segjast hafa fengið tölvupóst frá samskiptafyrirtæki í Bretlandi sem býður þeim upp á „samstarfssamning“ fyrir hönd viðskiptavinar með feikileg fjárráð en vilji fara leynt. Viðkomandi vilji vera nafnlaus og að samningnum verði haldið leyndum.

„Skrýtið. Ég fékk samstarfstilboð sem felst í því að hallmæla bóluefni Pfizer í myndskeiði,“ skrifar Leo Grasset á Twitter en áskrifendur á YouTube vísindarás hans eru um 1,2 milljónir talsins. Hann bætir við að viðkomandi vilji vera nafnlaus og eins að ekki verði upplýst um samninginn. 

Grasset segir að heimilisfang samskiptastofunnar í London sé falsað og að hún hafi aldrei verið starfandi þar enda sé lazer-aðgerðastofa starfrækt þar. Allir starfsmenn samskiptafyrirtækisins séu með furðulegar skráningar á LinkedIn. Þeir hafa nú allir verið fjarlægðir en þeir áttu allir það sammerkt að hafa starfað í Rússlandi. 

Grínistinn Sami Ouladitto,sem er með um 400.000 áskrifendur, varð fyrir svipuðu sem og Et Ca Se Dit Medecin.

Heilbrigðisráðherra Frakklands, Olivier Veran, gagnrýnir þessa tilraun harðlega. „Þetta er lágkúrulegt, hættulegt, óábyrgt og þetta mun ekki ganga eftir.“

Veran segist ekki hafa hugmynd um hvaðan þetta kemur. Flestir Frakkar eru tilbúnir til að láta bólusetja sig að sögn Veran og hann telji að þetta verði ekki til þess að letja fólk til að láta bólusetja sig. 

Le Monde greinir frá því að samskiptastofan Fazze hafi aldrei verið skráð í Bretlandi en geti haft aðgang í gegnum Jómfrúareyjar. Samkvæmt prófíl forstjóra Fazze á LinkedIn starfar stofan í Moskvu. Prófíll hans hefur nú verið fjarlægður á LinkedIn.

Fólk sem fékk tilboð um samstarf var boðið 2 þúsund evrur gegn því að segja að bóluefni  Pfizer-BioNTech hafi dregið fleiri til dauða en nokkuð annað bóluefni. 

Bólusetningar fóru hægt af stað í Frakklandi en undanfarnar vikur hefur það breyst og er nú búið að  bólusetja 23  milljónir, þriðjung fullorðinna Frakka, hingað til. Þar eru bæði taldir með hálf- og fullbólusettir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert