Fjórir handteknir í Indónesíu fyrir að selja stolin bóluefni ætluð föngum

Lögreglumaður gætir sendingar af Sinovac bóluefninu er það lenti í …
Lögreglumaður gætir sendingar af Sinovac bóluefninu er það lenti í Indónesíu í janúar síðastliðnum. AFP

Fjórir hafa verið handteknir í Indónesíu í tengslum við það að hafa stolið Covid-19 bóluefnum ætluð föngum og selt þau til almennings. Stjórnvöld í Indónesíu greina frá þessu.

Þeir grunuðu eiga að hafa stolið meira en eitt þúsund skömmtum af Sinovac bóluefninu úr birgðum sem ætluð voru föngum og selt hvern skammt á það sem samsvarar um tvö þúsund íslenskar krónur í borgunum Jakarta og Medan.

Á meðal þeirra grunuðu er læknir úr fangelsi í Medan og heilbrigðisfulltrúi að sögn indónesísku lögreglunnar. Þeir eiga fyrir höfði sér lífstíðarfangelsisvist verði þeir sakfeldir.

Indónesía hefur orðið illa fyrir barðinu á heimsfaraldrinum og er í miðjum klíðum við að bólusetja þjóðina sem telur um 270 milljón manns en íbúar fá bólusetningu gjaldfrjálst.

Nú bíða enn tugir milljóna manna eftir bólusetningu á meðan bóluefni er enn af skornum skammti fyrir forgangshópa sem eiga hvað mestu hættu á að smitast. Þar á meðal eru fangar í yfirfullum fangelsum landsins sem þekkt eru fyrir léleg skilyrði.

Indónesía hefur nú tilkynnt um yfir 1,7 milljón kórónuveirusmit og tæplega 50 þúsund dauðsföll af völdum hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert