Mörg flugfélög forðast nú lofthelgi Hvíta-Rússlands eftir að yfirvöld þar í landi neyddu flugvél Ryanair til að lenda í höfuðborginni, Minsk, og handtóku blaðamann sem var um borð í vélinni.
Atvikið er áhyggjuefni fyrir flest flugfélög sem standa nú þegar höllum fæti vegna þess skaða sem heimsfaraldurinn veldur.
Þetta var meginumræðuefni á leiðtogafundi Evrópusambandsins á mánudaginn sem varð til þess að flugfélög aðildarríkjanna tuttugu og sjö voru hvött til þess að forðast hvítrússneska lofthelgi.
Stór flugfélög á borð við Air France, KLM, Lufthansa, Finnair og SAS hættu við flug yfir landinu og breyttu um stefnu hjá þeim flugum sem þegar voru í gangi. Hvíta-Rússland er í leið sem tengir saman Evrópu og Asíu en flugfélög hafa aðrar leiðir sem hafa verið notaðar þegar breyta þarf flugi vegna veðurs. Talið er að endurskipulagningin lengi flugtíma og auki því bæði eldsneytisnotkun og viðhald flugvélanna.
Nærri tvö þúsund og fimm hundruð flugvélar fljúga yfir Hvíta-Rússlandi vikulega en það er minna en tíðkaðist vanalega fyrir tíma kórónuveirunnar.