Hraunflæði frá eldgosinu í Nyiragongo fjalli í Austur-Kongó hefur stöðvast við borgina Goma en þangað flúðu þúsundir manna eftir að eldgosið hófst.
Eldur og eiturgufur hafa stigið upp frá nýja hrauninu sem hefur gleypt allt sem á vegi þess varð og valdið gríðarlegu tjóni á svæðinu. Talið er að um 2.500 heimili hafa eyðilagst vegna eldgossins. Hraunið hefur verið að stefna í átt að flugvellinum í Goma og segir herstjóri héraðsins að borginni hefði verið þyrmt þar sem hraunið stoppaði aðeins nokkur hundruð metrum fyrir utan borgarmörkin.
„Það er mikil brennisteinslykt og í fjarska sjást risastórir eldstrókar koma úr fjallinu,“ segir Carine Mbala, íbúi á svæðinu.
Yfir sjö þúsund manns flúðu til nágrannaríkisins Rúanda og gistu í neyðarskýlum, en flóttafólk er byrjað að snúa aftur til síns heima eftir hamfarirnar.
„Allt flóttafólkið frá Goma hefur verið að snúa til síns heima án óvæntra uppákoma, eftir að hafa dvalið í neyðarskýlum í Rúanda, sem voru aðallega skólar sem voru breytt í neyðarskýli,“ segir Marie Solange Kayisire.
„Sumir eru hræddir við að snúa til baka, aðrir hafa nú þegar snúið til baka og síðan eru aðrir sem eru búnir að snúa til baka en eru nú heimilislausir,“ segir Raphael Tenaud, forstöðumaður alþjóðarnefndar Rauða krossins.
Tjón á uppistöðulóni gæti haft áhrif á vatnsbirgðir 500 þúsund manna.
„Aðal vandamálið mun vera aðgangur fólks að hreinu vatni, því það getur haft slæmar afleiðingar þegar fólk drekkur óhreint vatn,“ segir Tenaud.