„Við vonum að hann þrauki“

AFP

Hvítrússneskum flugfélögum hefur verið bannað að fljúga í lofthelgi Evrópusambandsins og Air France hefur tilkynnt um að öllum flugferðum í lofthelgi Hvíta-Rússlands hafi verið aflýst. Er það í samræmi við ráðleggingar ESB í kjölfar þess að flugvél Ryanair var gert að lenda í höfuðborg Hvíta-Rússlands, Minsk, um helgina.

Um borð var aðgerðasinninn og blaðamaðurinn Roman Protasevich, en flugvélin var á leið frá Grikklandi til Litháen á sunnudag. Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi halda því fram að neyðarlendingin hafi verið framkvæmd vegna sprengjuhótunar frá Hamas-samtökunum, sem reynst hafi fölsk og að ekki hafi verið vitað að Protasevich væri um borð.

Roman Protasevich.
Roman Protasevich. Skjáskot af myndskeiðinu

Protasevich er 26 ára gamall. Hann flúði land árið 2019 til Litháen þar sem hann stofnaði ásamt fleirum spjallrásina Nexta á miðlinum Telegram. Spjallrásin gegndi lykilhlutverki í að skipuleggja umfangsmikil mótmæli í fyrra gegn Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands. Stjórnvöld hafa skilgreint hópinn sem öfgasamtök og ákært Protasevich fyrir að efna til óeirða. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi verði hann sakfelldur.

Farþegar vélarinnar lýstu því við AFP hversu óttasleginn Protasevich varð þegar í ljós kom að lenda ætti vélinni í Minsk. Monika Simkiene, einn farþeganna, sagði í samtali við blaðamann: „Hann sneri sér að fólki og sagði að hann stæði frammi fyrir dauðarefsingu.“ Hvíta-Rússland er eina Evrópuríkið þar sem dauðarefsingar viðgangast enn.

Stjórnvöld í Litháen hafa ráðlagt borgurum sínum að yfirgefa Hvíta-Rússland af öryggisástæðum.

Þær sem eru lagðar af stað breyta áætlunum sínum

Í tilkynningu frá Air France í morgun kemur fram að þetta sé í samræmi við ákvörðun ESB í gær og að öllum flugferðum inn í lofthelgi Hvíta-Rússlands hafi verið aflýst þangað til annað verði ákveðið. Þær þotur félagsins sem þegar væru komnar í loftið myndu breyta áætlunum sínum. 

Á fundi leiðtogaráðs ESB í Brussel í gær var einnig samþykkt bann við að flugfélög ríkja ESB myndu fljúga yfir Hvíta-Rússland og gripið yrði til frekari efnahagsþvingana en nú eru í gildi.  

Myndskeið er komið í dreifingu þar sem Protasevich segist vera við góða heilsu og játi á sig alla glæpi sem hann er sakaður um af hálfu ríkisins. Aðgerðasinnar segja aftur á móti að hann hafi verið beittur þrýstingi til að játa.

Styður aðgerðir ESB

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, segir aðgerðir stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi til skammar og árás á bæði fjölmiðlafrelsi og pólitískan andstæðing. Hann styður aðgerðir ESB gegn Hvíta-Rússlandi. 

Faðir Protasevich segist í samtali við BBC óttast að sonur hans verði pyntaður. Að sögn Dmitri Protasevich er hann verulega uggandi um hans hag og hvernig komið verði fram við son hans í heimalandinu. „Við vonum að hann þrauki. Við erum of hrædd til að jafnvel hugsa um það ofbeldi og pyntingar sem hann á yfir höfði sér,“ segir hann í viðtali við BBC og bætir við að þau séu í áfalli yfir því sem geti gerst í hjarta Evrópu á 21. öldinni. 

Náði síðast að skrifa mamma

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi sendu orrustuþotur af stað til þess að þvinga flug Ryanair,  FR4978, sem hafði farið frá Aþenu fyrr um morguninn og átti að lenda í Vilnius, til að lenda í Minsk. Vélin lenti í Minsk klukkan 13:16 að staðartíma á sunnudag, klukkan 10:16 að íslenskum tíma. 

Lögregla handtók Protasevich þegar vélin lenti með 126 farþega um borð. Jafnframt var unnusta hans, Sofia Sapega, handtekin. Móðir hennar segir að Sofia, sem er 23 ára gömul, hafi verið færð í fangelsi í Minsk og það síðasta sem hún hafi náð að skrifa á WhatsApp-skilaboðaforritið var mamma. Ásakanir á hendur henni liggja ekki fyrir. 

New York Times

BBC

Guardian

Sky

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert