140 saknað eftir að bátur sökk

Bátur á leið frá Níger-fylki í Nígeríu norðvestur til Kebbi-fylkisins klofnaði í tvennt og sökk.

Björgunaraðgerðir standa nú yfir en einungis 22 farþegar hafa fundist á lífi og einn látinn. Enn þá er ekkert vitað um afdrif hinna 140 farþeganna sem voru á bátnum en ólíklegt er að þeir hafi komist lífs af.

Algeng er að bátar klofni í Nígeríu, einkum vegna þess að bátarnir eru yfirleitt yfirfullir og þeim illa við haldið, sérstaklega á þessum tíma árs þegar rignir mest.

Báturinn sem klofnaði í dag var með um 163 farþega um borð en ekki er ætlast til að hann beri meira en 80 manns. Þar að auki var hann hlaðinn pokum af sandi úr gullnámu í grenndinni.

Fyrr í þessum mánuði drukknuðu 30 einstaklingar þegar öðrum ofhlöðnum báti hvolfdi í Níger-fylki. Sá bátur klofnaði einnig í tvennt eftir að hann rakst á trjábol í illviðri þar sem hann var á leið með fólk heim af markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert