Andrés Magnússon,
Dr. Anthony Fauci, helsti læknisfræðilegi ráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta, segist „ekki sannfærður“ um að kórónuveiran hafi þróast með náttúrulegum hætti utan Veirurannsóknarstofnunarinnar í Wuhan í Kína.
Hann telur að rannsaka þurfi í þaula hvernig veiran hafi orðið til.
Æ fleiri telja nú líklegt að veiran hafi orðið til á veirurannsóknarstofnuninni, þar sem hún hafi verið gerð í læknisfræðilegum tilgangi, en síðan sloppið út, að því er fram kemur í umfjöllun um kórónuveiruna í Morgunblaðinu í dag.
Kínversk stjórnvöld þykja hafa verið naum á aðgang að stofnuninni, en umfram allt hafa ekki fundist nein sönnunargögn, sem styðja tilgátur um náttúrulega tilurð veirunnar og smit hennar í menn. Eitt og hálft ár er liðið frá því heimsfaraldurinn braust út í Kína.