Norðuratlantshafsráðið fordæmir aðgerðir Hvíta-Rússlands á sunnudaginn þegar flugvél Ryanair sem var á ferð á milli Aþenu og Vilnius, var gert að lenda í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Voru blaðamaðurinn Roman Protasevich og Sofia Sapega unnusta hans handtekin á flugvellinum en Protasevich var í útlegð vegna gagnrýninnar umfjöllunar um stjórnvöld í landinu.
Í tilkynningu frá Nató segir að um sé að ræða ólíðandi aðgerð sem brjóti gegn almennum reglum um farþegaflug í alþjóðlegri lofthelgi. Þá hafi aðgerðirnar sett farþega og áhöfn í hættu. Jafnframt er kallað eftir sjálfstæðri rannsókn á atvikinu af hálfu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og stuðningi lýst yfir við aðgerðir vesturvelda.
Ráðið segir í yfirlýsingu sinni einnig að handtaka Protasevich sé á pólitískum grundvelli og beint gegn fjölmiðlafrelsi. Er þess krafist að Protasevich og Sapega sé umsvifalaust sleppt úr haldi. Þá er jafnframt lýst yfir stuðningi við Lettland eftir að lettneskum erindrekum var vísað frá Hvíta-Rússlandi.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur gagnrýnt aðgerðir Hvíta-Rússlands og flugfélög hafa forðast að fljúga yfir lofthelgi landsins eftir atvikið.