Níu létust í San Jose

Sprengjusveit á vettvangi á járnbrautarstöðinni.
Sprengjusveit á vettvangi á járnbrautarstöðinni. AFP

Níu létust í skotárás á járnbrautarstöð í San Jose í Kaliforníu í dag. Árásarmaðurinn var á meðal hinna látinnu. 

Lögreglan í borginni segir að árásin hafi átt sér stað vði járnbrautarstöð samgönguyfirvalds Santa Clara snemma í morgun að staðartíma, skömmu fyrir klukkan 15 að íslenskum tíma. Lögregla vinnur enn að því að tryggja að ekki séu sprengjur faldnar á svæðinu.

Árásarmaðurinn hóf skothríð á hóp starfsmanna járnbrautarstöðvarinnar sem var saman kominn vegna starfsmannafundar. Lögregla kom á staðinn á meðan árásin stóð enn yfir. Fjölmiðlar vestanhafs hafa greint frá því að árásarmaðurinn hafi fallið fyrir eigin hendi en lögregla hefur ekki staðfest það. 

Alls hafa orðið 230 skotárásir þar sem fjórir eða fleiri eru drepnir í Bandaríkjunum það sem af er ári. 

Skömmu fyrir árásina kviknaði í íbúðarhúsnæði eins starfsmanna járnbrautarstöðvarinnar. Til rannsóknar er hvort að árásarmaðurinn hafi kveikt í heimili sínu fyrir árásina. 

Sprengjusveit er að störfum á vettvangi árásarinnar en ekki er talið að almenningi stafi hætta af mögulegum sprengjum. Ekki liggur fyrir hvort og þá hve margar sprengjur hafa fundist. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert