Belgar undir 41 árs aldri munu ekki lengur fá bóluefni Janssen í kjölfar andláts ungrar konu sem fengið hafði bóluefnið.
Belgísk yfirvöld tilkynntu um þetta í dag, en konan sem var yngri en 40 ára lést 21. maí. Belgísk yfirvöld hafa farið fram á álit Lyfjastofnunar Evrópu vegna málsins.
„Fólki sem þegar hefur verið boðið þetta bóluefni og er yngri en 41 árs mun vera boðið annað bóluefni,“ sagði flæmski velferðarráðherrann Wouter Beke í kjölfar þess að tilkynnt var um takmörkunina.
Bóluefnið verður áfram notað við bólusetningar á eldra fólki og jaðarhópum. Takmörkunin gæti aftur á móti haft áhrif á bólusetningaherferð belgískra yfirvalda, en til stóð að öllum fullorðnum Belgum hefði verið boðin bólusetning fyrir 11. júlí.
Í áliti Lyfjastofnunar Evrópu frá því í apríl kom fram að möguleg tengsl væru á milli bóluefnis Janssen og sjaldgæfra blóðtappa. Í álitinu sagði þó að slík tilfelli væru afar sjaldgæf og að heilt á litið væri hættuminna að fá bóluefnið en að sleppa því.