Telja sig hafa fundið orsök blóðtappanna

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Þýskir vísindamenn telja sig hafa leyst ráðgátuna á bakvið sjaldgæfa blóðtappa sem komið hafa upp í kjölfar bólusetninga með efnum AstraZeneca og Janssen. Vísindamennirnir telja að hægt sé að gera breytingar á bóluefnunum til að koma í veg fyrir blóðtappa. 

Rolf Marschalek, prófessor við Goethe háskólann í Frankfurt, hefur leitt rannsókn á blóðtöppunum síðan í mars. Hann segir að rannsóknin bendir til þess að vandamálið liggi í smitberanum, eða veirugenaferjunni, sem bæði bóluefnin nota til þess að koma veirunni í líkama þess sem fær bólusetningu. 

Afhendingakerfi bóluefnanna gerir það að verkum að hlutar veirunnar klofni eða skeytist saman og skapi þannig afbrigði sem geta ekki bundið sig frumuhimnu þar sem ónæmi verður til. Einstaka afbrigðum er þannig skotið undan af frumum í líkamann sem hrinda síðan af stað myndun blóðtappa sem verður til hjá einum af hverjum 100 þúsund sem fá bóluefnin. 

Bóluefni Pfizer og Moderna, sem eru mRNA-bóluefni, nota annarskonar afhendingakerfi: veiran fer þannig einungis í frumuvökva en ekki kjarna frumunnar. 

Tilfelli blóðtappa í kjölfar bólusetningu með AstraZeneca og Janssen hafa haft umtalsverðar afleiðingar á bólusetningaherferðir margra landa þar sem notkun efnanna hefur ýmist verið hætt eða hún takmörkuð. Blóðtappar vegna efnanna hafa komið upp hjá 309 af þeim 33 milljónum sem fengið hafa efnin í Bretlandi og 56 hafa látist vegna þeirra. Í Evrópu hafa að minnsta kosti 142 fengið blóðtappa af þeim 16 milljónum sem bólusettar hafa verið með efnunum tveimur. 

Marschalek telur að hægt sé að breyta bóluefninu þannig að afbrigði myndist ekki. Johnson og Johnson, framleiðandi bóluefnis Janssen, hefur þegar haft samband við Marschalek og óskað eftir aðstoð í kjölfar rannsóknar hans. Þá segir hann að minni líkur séu á að veiran í bóluefni Janssen klofni og því séu tilfelli blóðtappa færri en þegar um bóluefni AstraZeneca er að ræða. 

Aðrir vísindamenn hafa varað við því að kenning Marschalek sé aðeins ein af mörgum og að þörf sé að frekari rannsóknum til stuðnings kenningarinnar. 

Frétt Financial Times. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert