Biden krefst rannsóknar á uppruna Covid-19

Sýnataka vegna Covid-19 í kínversku borginni Wuhan.
Sýnataka vegna Covid-19 í kínversku borginni Wuhan. AFP

For­seti Banda­ríkj­anna, Joe Biden, hef­ur farið fram á það við leyniþjón­ustu­skrif­stof­ur Banda­ríkj­anna að þær rann­saki upp­gang Covid-19 á sama tíma og vax­andi ágrein­ing­ur er um upp­runa veirunn­ar. 

Frétt New York Times

Í yf­ir­lýs­ingu sem Biden sendi frá sér í gær kem­ur fram að hann hafi óskað eft­ir því við leyniþjón­ustu­stofn­an­ir Banda­ríkj­anna að setja auk­inn kraft í rann­sókn­ir sín­ar og gefa hon­um skýrslu um niður­stöður þeirra inn­an 90 daga. Þar tek­ur hann fram að ekki liggi nein niðurstaða fyr­ir, hvorki hjá CIA né öðrum leyniþjón­ustu­stofn­un­um. Aft­ur á móti að hann vilji að málið verði rann­sakað í þaula.

BBC grein­ir frá þessu en Covid-19 varð fyrst vart í kín­versku borg­inni Wu­h­an und­ir lok árs 2019. Síðan þá hafa yfir 168 millj­ón­ir jarðarbúa sýkst og að minnsta kosti 3,5 millj­ón­ir þeirra lát­ist. 

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur óskað eftir því að fá …
For­seti Banda­ríkj­anna, Joe Biden, hef­ur óskað eft­ir því að fá skýrslu um rann­sókn­ina inn­an 90 daga. AFP

Yf­ir­völd í Kína tengdu fyrstu Covid-smit­in við markað með sjáv­ar­fang í Wu­h­an og vís­inda­menn telja að veir­an hafi borist í menn frá dýr­um.

Fyrr í vik­unni fjölluðu banda­rísk­ir fjöl­miðlar um mögu­leik­ann á því að veir­an hafi mögu­lega orðið til í rann­sókn­ar­stof­um í Kína líkt og fjallað var um í grein Andrés­ar Magnús­son­ar í Morg­un­blaðinu í gær.

Stjórn­völd í Pek­ing hafa for­dæmt þess­ar frétt­ir og segja að veir­an hafi al­veg eins getað orðið til í banda­rísk­um rann­sókn­ar­stof­um.

Fyrstu tilvik veirunnar voru staðfest í Wuhan undir lok árs …
Fyrstu til­vik veirunn­ar voru staðfest í Wu­h­an und­ir lok árs 2020. AFP

Grein­in sem birt­ist í Morg­un­blaðinu í gær: 

Upp á síðkastið hef­ur til­gát­an um að kór­ónu­veir­an hafi orðið til á veiru­rann­sókn­ar­stofu kín­verskra stjórn­valda í Wu­h­an gengið í end­ur­nýj­un lífdaga og af aukn­um krafti. Fyrst þegar hún var sett fram, snemma í heims­far­aldr­in­um, var henni nær af­drátt­ar­laust vísað á bug sem frá­leitri sam­særis­kenn­ingu og þeim, sem á henni impruðu, born­ar ann­ar­leg­ar hvat­ir á brýn.

Þar kunna hags­mun­ir kín­verskra stjórn­valda að hafa skipt nokkru, en eins var þeirri til­gátu oft blandað sam­an við aðra, um að veir­an hefði verið búin til sem líf­efna­vopn. Fyr­ir því eru nær eng­in lík­indi og alls eng­ar vís­bend­ing­ar. En fyr­ir vikið voru mun færri til í að leiða hug­ann að því að veir­an hefði nú samt verið búin til og hún hefði sloppið út fyr­ir vangá eða slysni.

Fyrr en nú, þegar æ fleiri taka und­ir að þar sé a.m.k. mögu­leg skýr­ing, enda sé ekki fram kom­in önn­ur senni­legri skýr­ing á því hvernig þessi kór­ónu­veira varð til, hvernig hún barst í menn og hversu bráðsmit­andi hún reynd­ist vera.

Þar á meðal er dr. Ant­hony Fauci, einn virt­asti vís­indamaður Banda­ríkj­anna á þessu sviði, sem nú seg­ir op­in­ber­lega að ekki sé hægt að úti­loka það.

Óljós upp­runi veirunn­ar

Upp­runi kór­ónu­veirunn­ar hef­ur þó alla tíð verið myrkr­um sveipaður, þótt fáir sjúk­dóm­ar hafi verið rann­sakaðir af meira kappi. Á því eina og hálfa ári, sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur geisað, hef­ur hann lagt rúm­ar þrjár millj­ón­ir manna í gröf­ina, gert hundruð millj­óna fár­veika og haft ómæld efna­hags­áhrif um heim all­an.

Upp­haf­lega töldu marg­ir að veir­an hefði borist með ein­hverj­um hætti frá leður­blök­um um aðrar dýra­teg­und­ir til manna, þótt ekki væri sú leið skýrð með viðhlít­andi hætti. Helst var horft til op­inna kjöt­markaða í Kína, þar sem hrein­læti og smit­gát þykir frem­ur ábóta­vant. Sú leið var ekki óhugs­andi, en fyr­ir henni hafa eng­ar sann­an­ir fund­ist þótt mikið hafi verið leitað.

Frá upp­hafi hafa þó marg­ir bent á að það hafi verið ótrú­leg til­vilj­un, að veir­an hafi fyrst slegið sér niður ör­skammt frá Veiru­fræðirann­sókn­ar­stofn­un­inni í Wu­h­an, þar sem eiga sér ein­mitt stað bæði rann­sókn­ir og til­raun­ir með veir­ur.

Þá hef­ur komið í ljós að þrír vís­inda­menn við Veiru­rann­sókn­ar­stofn­un­ina í Wu­h­an urðu svo veik­ir í nóv­em­ber 2019, að leggja þurfti þá á sjúkra­hús. Það þykir mörg­um vera næg ástæða til þess að rann­saka frek­ar hvað hafi eig­in­lega átt sér stað þar í stofn­un­inni, en þrátt fyr­ir að Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in (WHO) hafi sent rann­sókn­ar­nefnd þangað í fe­brú­ar, voru kín­versk stjórn­völd naum á aðgang henn­ar að gögn­um og vís­inda­mönn­um.

Vís­bend­ing­ar um veiru­tilraun­ir

„Mönn­um virðist hafa snú­ist hug­ur,“ seg­ir Nicholas Wade, fyrr­um vís­inda­blaðamaður New York Times , sem seg­ir að miðað við fyr­ir­liggj­andi gögn sé lík­legra að kór­ónu­veir­an hafi sloppið úr rann­sókn­ar­stofu en að hún hafi borist í menn með nátt­úru­leg­um hætti, þ.e.a.s. frá einni teg­und til annarr­ar. Hann tek­ur fram að sú skýr­ing hafi verið afar senni­leg í upp­hafi, enda hafi tveir fyrri far­aldr­ar brot­ist út með þeim hætti. Eft­ir því sem tím­inn hafi liðið án þess að nokk­ur sönn­un­ar­gögn þess hafi fund­ist hafi fyrri kenn­ing­in, um að veir­an hafi orðið til í rann­sókn­ar­stofu og sloppið þaðan, orðið æ senni­legri.

„Það lít­ur út fyr­ir að þeir hafi átt við veir­ur, flutt prótein frá einni kór­ónu­veiru til annarr­ar í von um að búa til smit­gjarn­ari veiru.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert