DHL-sprengjumaðurinn gefur sig fram

Maðurinn olli usla í Þýskalandi árin 2017 og 2018.
Maðurinn olli usla í Þýskalandi árin 2017 og 2018.

Þýskur karlmaður hefur gefið sig fram við lögreglu og játað að bera ábyrgð á bréfasprengjum sem notaðar voru til að fjárkúga þýska fyrirtækið DHL. Maðurinn er talinn vera heilinn á bak við aðgerðirnar, sem vöktu mikla athygli í Þýskalandi fyrir þremur árum.

Lögregla segir að maðurinn hafi sent fjölda lítilla sprengja með bréfpósti stíluðum á heimilsföng í Berlín og Brandenburg frá nóvember 2017 fram í nóvember 2018. Engan sakaði þó, en sendingarnar vöktu nokkra athygli í Þýskalandi.

Í einu bréfanna voru skilaboð þar sem því var hótað að maðurinn myndi ekki láta af athæfinu nema DHL greiddi honum andvirði 10 milljóna evra (1,5 milljarða kr.) í rafmyntinni bitcoin. Það var ekki gert, en engu að síður hætti maðurinn sendingunum.

Þrátt fyrir að eiga yfir höfði sér ákæru í tíu liðum, ákvað dómari að maðurinn þyrfti ekki að sæta gæsluvarðhaldi fram að réttarhöldum. Benti hann meðal annars á að hann hefði jú sjálfur farið á lögreglustöð og játað glæpinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert