Hæstiréttur Noregs hefur vísað frá áfrýjun saksóknara á dómi yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að verða hálfbróður sínum Gísla Þór Þórarinssyni að bana í Mehamn árið 2019. Dómurinn yfir Gunnari stendur því óraskaður.
Í apríl var Gunnar látinn laus úr haldi að ákvörðun áfrýjunardómstóls þar til ljóst yrði hvort málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti. Gunnar hlaut upphaflega 13 ára fangelsisdóm en áfrýjunardómstóll mildaði dóminn í fimm ár í mars síðastliðnum.
Hæstiréttur Noregs hefur nú hafnað því að taka áfrýjunina til meðferðar og mun dómurinn yfir Gunnari því standa.
Gunnar hefur alltaf haldið því fram að um slysaskot hafi veri að ræða og féllust fjórir af sjö dómurum við áfrýjunardómstólinn á þá skýringu, það er manndráp af gáleysi. Aftur á móti hélt saksóknari því fram að um viljaverk hefði verið að ræða en Gunnar hafði ítrekað hótað því að drepa hálfbróður sinn.