Fá ekki að lenda í Rússlandi

Flugvélar Air France.
Flugvélar Air France. AFP

Rússnesk yfirvöld hafa meinað tveimur evrópskum flugfélögum að lenda í Rússlandi vegna áforma flugfélagsins að fljúga ekki yfir Hvíta-Rússland á leið til Moskvu. 

Air France og Austrian Airlines hafa þurft að aflýsa flugferðum í dag eftir að rússnesk yfirvöld gagnrýndu áform flugfélaganna um að forðast lofthelgi Hvíta-Rússlands í mótmælaskyni eftir að hvítrússnesk yfirvöld handtóku blaðamanninn Roman Protasevich og Sofiu Sapega unnustu hans. Þau voru um borð í flugvél Ryanair sem var gert að lenda í Minsk á leið sinni frá Aþenu til Vilnius á sunnudag. 

Rússland er einn helsti bandamaður Hvíta-Rússlands, sem var hluti af Sovétríkjunum og hefur haldið fast í tengsl sín við Kreml. 

Rússar hafa ekki áður blandað sér í deilur vegna atviksins á sunnudag og viðbragða m.a. Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins í kjölfarið. Þá hafa rússnesk yfirvöld ekki sagt til um það hvort að öllum flugvélum sem forðast lofthelgi Hvíta-Rússlands verði meinað að lenda í Rússlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert