Háskólinn í Cambridge og safnahópur í Bretlandi hafa keypt skjöl og persónulega muni vísindamannsins, Stephen Hawking, fyrir 4,2 milljón punda sem jafngildir um 716 milljónum króna.
Munir Hawking verða geymdir í háskólanum í Cambridge en meðal gripa sem safnið inniheldur eru tíu þúsund blaðsíður af vísindaathugunum Hawking, hjólastólinn hans, talgervlar og skrifstofa hans. Gripirnir verða til sýnis á Vísindasafni London á næsta ári.
Skjalasafn Hawking inniheldur skjöl frá 1944 til 2008, þar á meðal fræðiritgerðir og sjónvarpshandrit úr þáttum líkt og The Simpsons. Safnið verður geymt við hlið skjalasafna frá Isaac Newton og Charles Darwin.
Stephen Hawking, sem var greindur með MND-sjúkdóminn, vann ævistarf sitt við að rýna í ráðgátur geimsins á meðan hann barðist við sjúkdóminn. Hann lést árið 2018 í Cambridge.