Viðurkennir þátt Frakklands í þjóðarmorðinu

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, viðurkenndi í dag þátt Frakklands í þjóðarmorðinu í Rúanda árið 1994 sem leiddi til dauða 800 þúsund manna, að mestu Tútsímanna, á 100 dögum.

Macron er staddur í Kigali, höfuðborg Rúanda, þar sem hann hélt ræðu við minnisvarða um þjóðarmorðið þar sem meira en 250 þúsund manna eru grafin. Hann óskaði eftir fyrirgefningu fyrir hönd Frakklands en bætti við að líklega gætu einungis þeir sem væru grafnir við minnisvarðann fyrirgefið.

Macron baðst hins vegar ekki formlega afsökunar og sagði Frakkland ekki vera meðsekt í morðunum, heldur lagði hann áherslu á hvernig landið hefði stutt stjórn Hútúmanna og hundsað viðvararnir um yfirvofandi fjöldamorð. Macron hefur þó verið gagnrýndur fyrir að biðjast ekki formlega afsökunar en hann sagði að það væri ekki eitthvað sem hann gæti sjálfur gert og að það væri ekki viðeigandi.

Sannleikurinn meira virði en afsökunarbeiðni

Forseti Rúanda, Paul Kagame, sagði orð Macron vera meira virði en afsökunarbeiðni þar sem þau væru sannleikurinn og að athöfnin krefjist gífurlegs hugrekkis.

Macron er fyrsti forseti Frakklands síðan árið 2010 til þess að heimsækja Rúanda en ríkið hefur lengi ásakað Frakkland um hlutdeild í morðunum.

Í mars á þessu ári komst frönsk nefnd að þeirri niðurstöðu að Frakkland, undir stjórn François Mitterrand hefði borið „þunga og yfirþyrmandi ábyrgð“ á þjóðarmorðinu en væri ekki meðsekt. Í skýrslu nefndarinnar segir að að Frakkland hafi verið „blint“ fyrir undirbúningi þjóðarmorðanna.

Emmanuel Macron, viðurkenndi þátt Frakklands í þjóðarmorðinu í Rúanda.
Emmanuel Macron, viðurkenndi þátt Frakklands í þjóðarmorðinu í Rúanda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert