Franska lögreglan leitar nú manns sem stakk lögreglukonu með hníf í Vestur-Frakklandi og særði alvarlega. Maðurinn, sem er vopnaður, er á flótta eftir árásina í bænum La Chapelle-sur-Erdre, skammt frá Nantes. Íbúar bæjarins eru um 20 þúsund talsins.
HeimildirAFP-fréttastofunnar herma að um fjölmennt lið lögreglu leiti hans en samkvæmt frétt BFMTV sjónvarpsstöðvarinnar náði árásarmaðurinn byssu lögreglukonunnar og er með hana á sér á flóttanum.
Grunnskólabörnum er haldið innandyra á svæðinu á meðan maðurinn er ófundinn en áverkar konunnar eru lífshættulegir.
Innanríkisráðherra Frakklands, Gérald Darmanin, er á leið á vettvang en árásin er gerð sama dag og Eric Dupond-Moretti dómsmálaráðherra hvatti dómara til þess að sýna staðfestu þegar þeir ákvörðuðu refsingu fólks sem hefur gerst sekt um ofbeldi í garð lögreglu. Þetta er í samræmi við beiðni lögreglunnar þar sem hún hefur krafist aukinnar verndar og harðari refsinga fyrir ofbeldi í hennar garð.
Fyrr í mánuðinum var lögreglumaðurinn Eric Masson skotinn til bana er hann rannsakaði fíkniefnaviðskipti í borginni Avignon. 23. apríl var síðan Stephanie Monferme, starfsmaður lögreglunnar, stungin til bana í bænum Rambouillet skammt fyrir utan París en það er síðasta hryðjuverkaárásin sem hefur verið framin í Frakklandi.