Nær allir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpi um óháða rannsókn á árás stuðningsmanna Donalds Trump á bandaríska þinghúsið í janúar.
54 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, þar á meðal sex repúblikanar, en 35 gegn því. Sextíu atkvæði þurfti til þess að samþykkja frumvarpið í ljósi þess að repúblikanar ætluðu að beita málþófi til þess að stöðva framgang þess. Líklega er því útséð um að óháð rannsókn fari fram.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, hvatti þingflokk sinn til að gefa demókrötum ekki vopn í hendur fyrir þingkosningar á næsta ári með því að samþykkja stofnun nefndarinnar. Hann hélt því einnig fram að rannsóknarnefndin væri óþörf þar sem að bæði þingnefndir og dómsmálayfirvöld rannsaka atlöguna að þinghúsinu.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, fordæmdi Repúblikana og sagðist ekki skilja hvernig væri hægt að greiða atkvæði gegn nefnd sem ætti að rannsaka mestu átök sem hafa orðið í Bandaríkjunum síðan árás var gerð á þinghúsið í borgarastyrjöldinni.
Þúsundir stuðningsmanna Trump þyrptust að þinghúsinu eftir fjöldafund með Trump daginn sem báðar deildir þingsins staðfestu kjör Joe Biden sem forseta 6. janúar.
Hundruð þeirra í það minnsta slógust við lögreglumenn og brutust inn í þinghúsið þannig að gera þurfti hlé á þingfundi. Þingmenn og starfslið þeirra þurfti að fela sig á læstum skrifstofum á meðan æstur múgur fór um húsið.