Rússland hefur skrásett fyrsta bóluefni heimsbyggðarinnar gegn Covid-19 fyrir dýr, að því er þarlend landbúnaðaryfirvöld greindu frá í dag. Að sögn þeirra sýna rannsóknir að bóluefnið myndi mótefni gegn Covid-19 hjá hundum, köttum, refum og minkum.
Reuters greinir frá þessu.
Bóluefnið ber heitið Carnivac-Cov. Stærri framleiðsla á því getur hafist eftir tæpt ár, eða í apríl árið 2022.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur áður látið í ljós áhyggjur af kórónuveirusmitum á milli manna og dýra. Rússnesk heilbrigðisyfirvöld segja að bóluefnið eigi að geta verndað viðkvæmar tegundir og komið í veg fyrir það að veiran stökkbreyti sér í dýrum.
Rússland hefur til þessa einungis greint tvö kórónuveirusmit hjá dýrum. Bæði smitin greindust hjá köttum.