Grænlensk yfirvöld hafa ákveðið að loka á allt flug til höfuðborgarinnar Nuuk fram á mánudag. Íþróttaviðburðir verða sömuleiðis bannaðir og veitingastöðum gert að loka. Þetta kemur í kjölfar þess að þrjú smit hafa greinst í Nuuk í vikunni og hefur ekki tekist að rekja uppruna eins smitsins. Því er óttast að fleiri kunni að vera smitaðir. Frá þessu segir á síðunni Sermitsiaq.AG.
Sá sem greindist smitaður í gær hafði stundað næturlífið í höfuðborginni um síðustu helgi og ekki talið útilokað að viðkomandi hafi smitast þar. Heilbrigðisyfirvöld á Grænlandi hafa hvatt alla þá sem sóttu ákveðna staði í höfuðborginni síðastliðna helgi að fara í sýnatöku.
Á blaðamannafundi nú síðdegis var ítrekað að fólk í Nuuk skuli notast við grímu í verslunum, opinberum byggingum og í almenningssamgöngum.
Síðast greindist smit á Grænlandi fyrir tæplega þremur mánuðum eða í byrjun mars. Svipaðir atburðir eru að gerast í Færeyjum en um síðustu helgi greindust 16 smit og því flestum samkomum aflýst.
Í síðustu viku voru Færeyjar og Grænland einu löndin á grænum lista heilbrigðisyfirvalda á Íslandi, en í því felst að farþegar frá löndunum sæta engum takmörkunum við komuna til landsins og þurfa ekki að fara í sóttkví. Færeyjar voru hins vegar teknar af listanum á þriðjudag.
Alls hafa 37 manns greinst með kórónuveiruna á Grænlandi frá upphafi faraldursins.