Fjöldagröf 215 barna fannst í Kanada

Kamloops Indian Residential-skólinn, þar sem líkin fundust.
Kamloops Indian Residential-skólinn, þar sem líkin fundust. 

Fjöldagröf 215 barna fannst nýverið í gömlum heimavistarskóla, þar sem börnum af frumbyggjaættum hafði verið komið fyrir í því skyni að „aðlaga þau“ kanadísku samfélagi. Kanadíska ríkisútvarpið greinir frá.

Dánarorsök barnanna er enn óþekkt og ekki liggur fyrir hve langt er um liðið. Líkin fundust með hjálp ratsjár við eftirlit í byggingunni. „Eftir því sem við best vitum eru þetta óskráð andlát. Börnin voru allt niður í þriggja ára gömul,“ hefur BBC eftir leiðtoga frumbyggjaþjóðarinnar Tk'emlups te Secwepemc.

„Menningarlegt þjóðarmorð“

Um 150.000 börn voru á árunum 1863 til 1998 tekin frá foreldrum sínum og þeim gert að sækja slíka skóla. Var þeim gjarnan bannað að nota eigin tungumál og rækja eigin menningu.

Skólinn sem um ræðir hét Kamloops Indian Residential School í British Columbia og var hann stærstur slíkra skóla. Um 500 börn sóttu þar nám þegar mest lét á sjötta áratugnum, en skólanum var lokað árið 1978.

Kanadísk stjórnvöld báðust formlega afsökunar á kerfinu árið 2008 og fyrirskipuðu þá úttekt á því. Leiddi hún í ljós að fjöldi barna sneri aldrei aftur til síns heima. Yfir 4.000 börn létust meðan á dvöl þeirra í heimavistarskólum stóð, án þess að kennsl hafi nokkurn tíma verið borin á þau.

Var kerfinu enn fremur lýst sem „menningarlegu þjóðarmorði“ (e. cultural genocide).

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tjáði sig um fund fjöldagrafarinnar í gær. Segist hann harmi sleginn vegna fregnanna og að þær séu áminning um myrkan og skammarlegan kafla í sögu landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert