Kórónuveiran herjar nú sem aldrei fyrr á yfirfull fangelsi í Taílandi. Margir fangar hafa minna svefnpláss en væri í líkkistu. Um 25 þúsund fangar í landinu hafa greinst með veiruna og eru þeir hvattir að bera andlitsgrímu öllum stundum, líka á meðan þeir sofa.
Yfirvöld í Taílandi hafa brugðið á það ráð að láta lausa fanga með undirliggjandi sjúkdóma til þess að forða þeim frá alvarlegum sjúkdómseinkennum veirunnar. Þá hefur verið ráðist í aukin fjárútlát til heilbrigðismála innan fangelsismálakerfisins.
Fyrrum fangar í Taílandi segja þó að fangelsismálayfirvöld hafi gert lítið úr alvarleika faraldursins innan veggja fangelsa landsins og reynt að hefta upplýsingaflæði til fanga og starfsmanna.
„Fangar hafa ekki fengið neinar upplýsingar um hvernig smitvörnum sé best háttað,“ segir Somyot Prueksakasemsuk, þekktur talsmaður fanga í Taílandi. Hann á yfir höfði sér ákæru fyrir brot á harðri löggjöf Taílendinga við smánun og móðgun í garð Taílandskonungs.