Sænsk stjórnvöld eiga í viðræðum við stjórnvöld í Noregi og Danmörku til að reyna að manna heilbrigðisstofnanir í landinu í sumar. Sænska ríkissjónvarpið, SVT, greinir frá þessu.
Svíþjóð hefur farið verr út úr kórónuveirufaraldrinum en önnur Norðurlönd og þótt dregið hafi úr smittíðni að undanförnu er enn nokkurt álag á heilbrigðiskerfið þar í landi.
Í síðustu viku lögðust 73 sjúklingar inn á gjörgæslu vegna Covid-19 í Svíþjóð, um helmingi færri en meðaltal síðustu þriggja vikna á undan. Alls hafa ríflega 7.400 lagst inn á gjörgæslu af völdum sjúkdómsins frá því faraldurinn hófst.
Að sögn David Konrad, yfirmanns skurð- og gjörgæsludeildar Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, vantar þar sárlega starfsfólk. „Við höfum ekki nægilega margt starfsfólk, og því stefnir allt í að sumarið verði þungt.“