Drukkin í sjálfkeyrandi bifreiðum

Tesla-bifreið.
Tesla-bifreið. AFP

Í netheimum má nú víða finna myndbönd af fólki drukknu í sjálfkeyrandi Tesla-bifreiðum, yfirvöld í Bandaríkjunum athuga nú hvort markaðssetning hálfsjálfkeyrandi bíla sé misvísandi.

Nýjar Tesla-bifreiðar eru búnar stillingu sem kallast „Autopilot“. Sé kveikt á þeim búnaði miðar bíllinn við að halda sama hraða og nálægar bifreiðar og halda sér innan akreinar ásamt því að geta skipt um akrein og lagt í stæði.

Ökumenn eigi að vera allsgáðir

Hugbúnaðurinn ætlast þó til þess að mannlegi bílstjóri bifreiðarinnar sitji með sætisbelti spennt og haldi höndum á stýrinu þótt bíllinn sjái að langmestu leyti um aksturinn. Séu hendur ekki á stýrinu eða sætisbelti ekki spennt á bíllinn hægt og rólega að slökkva á Autopilot-virkninni.

Þrátt fyrir þessar öryggisráðstafanir hafa notendur fundið leiðir fram hjá þeim og geta þá yfirgefið bílstjórasætið og látið bílinn einan um aksturinn. Forsvarsmenn Tesla og umferðaryfirvöld í Bandaríkjunum hafa varað við þessu og ítrekað að búnaðurinn sé langt frá því svo fullkominn að fólk geti horfið frá skyldum sínum sem bílstjórar, til dæmis með því að setjast drukkið undir stýri.

Stjórnborð Tesla-bifreiðar.
Stjórnborð Tesla-bifreiðar. AFP

Dansandi á 105 kílómetra hraða

Þrátt fyrir það má nú finna geysivinsæl myndbönd á miðlum á borð við TikTok þar sem fólk notar Autopilot eins og tæknin sé fullkomin. Í einu þessara myndbanda má þrjá unga menn dansandi í bifreið á 105 kílómetra hraða á klukkustund, áfengi við hönd og enginn í bílstjórasætinu. 

Yfirvöld í Kaliforníu rannsaka nú hvort markaðssetning Tesla-bifreiða sé misvísandi hvað varðar Autopilot-búnaðinn og hvort hún kunni að vekja þá hugmynd hjá notendum að þeir geti treyst bílnum fullkomlega. Þá þykja yfirlýsingar Elon Musks, eiganda Tesla inc., um hugbúnaðinn ansi yfirdrifnar en hann segir fullkomna sjálfstýringu alltaf vera rétt handan við hornið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert