Konur á Skáni í Svíþjóð munu sjálfar sjá um að framkvæma eigin leghálsskimanir frá og með haustinu. Sænska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Heilbrigðisstofnanir hafa prófað sig áfram með sjálfsprófin síðan kórónuveirufaraldurinn hófst með góðum árangri, og er nú svo komið að 40 prósent þeirra prófa sem framkvæmd eru í héraðinu eru af þessum toga.
Læknir hjá heilbrigðisumdæmi héraðsins segir í samtali við P4-útvarpsstöðina að hin nýja leið sé til þess fallin að fá fleiri konur til að fara í skimun. „Við vitum að margar konur sleppa sínum skimunum þar sem þær hafa ekki tíma. En þær ættu allar að hafa tíma fyrir þetta próf,“ segir Gunilla Bodelsson, yfirmaður á sviði klínískrar erfðafræði hjá heilbrigðisumdæminu.
Sjálfsprófin eru send heim til kvenna og framkvæmd með því að stinga sérstökum bómullarpinna inn í leggöng. Því næst eru þau póstlögð til greingar.
Leghálsskimanir eru framkvæmdar til að greina krabbamein í leghálsi, en það er eitt fárra krabbameina sem hægt er að greina á forstigi og þar með lækna. Skipuleg leit að krabbameininu hófst á Íslandi árið 1964 og hefur dánartíðni síðan þá lækkað um 90%.
Leghálsskimanirnar hafa verið nokkuð til umræðu hér á landi síðustu mánuði vegna þeirrar ákvörðunar heilbrigðisráðherra að fela heilsugæslustöðvum að sjá um framkvæmd skimananna, en þær hafa áður verið á forræði Krabbameinsfélagsins. Hefur sá flutningur ekki gengið snuðrulaust fyrir sig.