Vilja flytja hælisleitendaferlið til Afríku

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Ríkisstjórn jafnaðarmanna í Danmörku hefur hug á því að flytja hælisleitendaferli landsins til Afríkuríkis. Danska þingið mun á fimmtudag greiða atkvæði um frumvarp sem festir í lög svokallaða „núllsýn“ stjórnvalda um engar óvæntar umsóknir um alþjóðlega vernd.

Þá verði hælisleitendaferlið flutt til ríkis utan Evrópusambandsins og allir umsækjendur því vistaðir á erlendri grundu meðan mál þeirra fá úrvinnslu. 

Með frumvarpinu er stigið enn eitt skrefið í átt til hertrar útlendingastefnu, sem verið hefur eitt meginstefið í málflutningi jafnaðarmannaflokksins þar í landi síðan Mette Frederiksen tók við formannsembætti árið 2015.

Svo mjög hefur flokkurinn tekið upp stefnu Danska þjóðarflokksins í málaflokknum að tilverugrundvöllur þess síðarnefnda er nær hruninn og fylgið sömuleiðis. Hafa jafnaðarmenn notið góðs af því, þótt flokkurinn hafi einnig misst til annarra vinstriflokka þá stuðningsmenn sem telja of langt gengið.

Sleppi við smyglara

Ein helstu rök jafnaðarmanna fyrir frumvarpinu eru að með því þyrfti flóttafólk ekki lengur að leita á náðir smyglara til að koma sér inn til Evrópu eða hætta lífi sínu í bátsferð yfir Miðjarðarhaf. Fjöldi fólks í leit að betra lífi lætur árlega lífið í slíkum bátsferðum, sem gerðar eru út af bröskurum sem jafnan kæra sig kollótta um líf og limi farþega.

Raunin er þó sú að engin breyting verður á ferðalagi þeirra sem vilja óska eftir hæli í Danmörku. Þeir verða eftir sem áður að halda til Danmerkur, sækja um hæli við dönsku landamærin til þess eins að verða sendir þaðan til Afríkuríkisins meðan beðið er afgreiðslu umsóknar.

Hörð gagnrýni

Martin Lemberg-Pedersen, lektor í fólksflutningafræðum við Kaupmannahafnarháskóla, segir í samtali við sænsku fréttaveituna TT að breytingin yrði sú stærsta í málaflokknum frá árinu 1951.

Hann segir það mat Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins að nái tillagan fram að ganga yrði grafið undan alþjóðlegri samvinnu í málaflokknum. Sömuleiðis hefur frumvarpið mætt gagnrýni hjálparsamtaka á borð við Amnesty International, Rauða krossins og Barnaheilla.

„Það er ekki hægt að útvista ábyrgð sinni á mannréttindum,“ segir Louise Holck, forstjóri Mannréttindastofnunar Danmerkur, en rétturinn til að sækja um alþjóðlega vernd telst til mannréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka