Eigandi hattaverslunar í Nashville hefur þurft að biðjast afsökunar eftir að hafa birt auglýsingu á samfélagsmiðlum um að þar væru seldar gular stjörnur með merkingunni „Ekki bólusettur“.
Stjarnan minnir mjög á Davíðsstjörnuna sem gyðingum var gert að bera í valdatíð nasista.
Davíðsstjarnan er tákn gyðingdómsins og stundum nefnd gyðingastjarnan. Stjarnan er mynduð úr tveim jafnhliða þríhyrningum svo það myndast sex armar eða svokallaðhexagram.
Auglýsingin vakti hörð viðbrögð og á laugardag tilkynnti Stetson hattaframleiðandinn að hann myndi hætta að selja framleiðslu sína í versluninni sem um ræðir, HatWRKS. Hið sama gerði annað þekkt hattafyrirtæki, Goorin Bros.
Í tilkynningu frá Stetson kemur fram að fyrirtækið fordæmi gyðingahatur og mismunun af hverju tagi sem er. Vegna þessa hefur Stetson ákveðið að hætta að selja vörur fyrirtækisins í HatWRKS í Nashville.
We are aware of the situation in Nashville. We take this matter seriously and are investigating in order to take the necessary and appropriate next steps. Along with our distribution partners, Stetson condemns antisemitism and discrimination of any kind.
Atvikið kom upp í kjölfar þess að þingkona repúblikana líkti reglum þingsins um grímunotkun við kúgun nasista á gyðingum. Sjá nánar hér
HatWRKS hefur nú eytt auglýsingunni á Instagram en margir hafa birt myndir af stjörnunni sem var þar til sölu, þar á meðal fólk sem lifði helförina af.
Rithöfundurinn Min Jin Lee segir merkið óviðeigandi og særandi. Þetta sé gyðingahatur á sama tíma og hatur gagnvart gyðingum fer vaxandi í Bandaríkjunum.
Gigi Gaskins, sem er eigandi HatWRKS, baðst á laugardag afsökunar á Instagram og sagði að hún hafi alls ekki ætlað að móðga og niðurlægja gyðinga. Áður hafði Gaskins sagt að fólk ætti að vera brjálað vegna þeirrar kúgunar sem það byggi við. Að gagnrýnendur hennar væru ekki að skilja hvað væri að gerast í kringum þá. Í annarri færslu sagði hún hafa áhyggjur af sóttvarnareglum og takmörkunum og hún teldi að hún væri skotmark múgs.
Mótmælendur komu saman fyrir utan verslunina á laugardag með stórt skilti sem á stóð: „Engir nasistar í Nashville.“
Washington Post vísar í færslur fyrirtækisins á Instagram og að þar sé að finna upplýsingaóreiðu þegar kemur að bólusetningum og ógnandi umræða. Frá því í nóvember hafa á annan tug færslan fyrirtækisins verið merktar sem falsfréttir af Instagram.