ESB: Neikvætt próf án sóttkvíar dugi

Á Íslandi þurfa allir farþegar að fara í skimun við …
Á Íslandi þurfa allir farþegar að fara í skimun við komuna til landsins. Fullbólusettir sleppa þó við fimm daga sóttkvína. Morgunblaðið/Íris

Fullbólusettir ferðamenn, með gilt vottorð, ættu að vera undanskildir öllum reglum um sóttkví og sýnatöku vegna ferðalaga. Þetta er meðal þess sem fram kemur í uppfærðum tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til aðildarríkja vegna ferðatakmarkana á tímum heimsfaraldurs.

Í fréttatilkynningu frá sambandinu segir að nú þegar staða faraldursins fer batnandi um álfuna leggi framkvæmdastjórnin til að aðildarríki slaki hægt og rólega á ferðatakmörkunum milli ríkja, einkum og sér í lagi fyrir þá sem hafa bólusetningarvottorð.

Fjórfrelsi Evrópusambandsins, sem kveður á um frjáls ferðalög fólks milli ríkja ESB og annarra Schengen-ríkja, svo sem Íslands, var vikið til hliðar í upphafi faraldursins og hefur ESB ekki skipt sér mikið af íþyngjandi ferðatakmörkunum í ljósi aðstæðna. Þó hefur framkvæmdastjórnin beitt ýmsum tilmælum til ríkjanna, sem ekki eru bindandi, og voru þau uppfærð í dag.

Í tilmælunum segir að sömu reglur ættu að gilda um þá sem greinst hafa með veiruna og náð fullum bata á síðustu 180 dögum enda sé talið að þeir séu með virkt mótefni gegn veirunni.

Enn fremur segir í tilmælunum að ekki eigi að krefja ferðamenn um sóttkví framvísi þeir neikvæðu kórónuveiruprófi við komuna til landsins. Leggur framkvæmdastjórnin til að notast verði við samræmdan tímaramma. PCR-próf megi vera allt að 72 klukkutíma gömul, en hraðpróf 48 klukkustunda.

Harðari reglur á Íslandi

Ljóst er að ekki stendur til að fara að þessum tilmælum á Íslandi. Hér á landi þurfa farþegar að framvísa neikvæðu prófi við komuna til landsins, en það leysir þá ekki undan fimm daga sóttkví.

Fullbólusettir sleppa að vísu við þessar kröfur, en þurfa engu að síður að fara í eina skimun við komuna til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka