Peter Lescouhier, sendiherra Belgíu í Suður-Kóreu, verður sviptur sendiherraembættinu vegna óviðeigandi hegðunar sendiherrafrúarinnar Xiang Xueqiu. Myndskeið, sem er aðgengilegt neðar í fréttinni, náðist af henni löðrunga starfsmann í verslun í apríl síðastliðnum.
Það atvikaðist þannig að starfsfólk í versluninni vildi kanna hvort fötin sem hún væri í væru hennar eigin, eftir að grunsemdir um að Xiang hefði stolið úr versluninni vöknuðu.
Xiang hitti síðar starfsmanninn og baðst afsökunar á „óboðlegri hegðun“, að sögn utanríkisráðuneytis Belgíu. Afsökunarbeiðnin hefur þó greinilega ekki þótt nægja því Sophie Wilmes, utanríkisráðherra Belgíu, ákvað að binda enda á skipun Lesouchiers í sumar. Hann hafði sinnt embættinu í þrjú ár.
Utanríkisráðuneytið sagði í tilkynningu að þrátt fyrir að Lescouhier hefði sinnt sínu starfi vel leyfði „núverandi ástand“ honum ekki að „sinna hlutverki sínu áfram með viðeigandi hætti.“
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2021/05/17/eiginkona_sendiherra_krefst_fridhelgi/