Ráðherra Evrópumála í ríkisstjórn Frakklands, Clément Beaune, segir gríðarlega alvarlegt ef rétt reynist að danska leyniþjónustan hafi aðstoðað bandarísk starfssystkini sín við að njósna um evrópska stjórnmálamenn. Gögnum var safnað um stjórnmálamenn í Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð og Noregi samkvæmt gögnum sem nokkrir evrópskir fjölmiðlar unnu að í samstarfi. Um er að ræða danska ríkisútvarpið, það norska og sænska auk Süddeutsche Zeitung, NDR, WDR og Le Monde.
Rannsóknin byggir á gögnum og fréttum sem danska ríkisútvarpið hefur unnið að mánuðum saman.
Ráðherrar í ríkisstjórnum Noregs og Svíþjóðar krefjast svara frá Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur.
Bramsen, sem var upplýst um njósnirnar, segir í samtali við DR að kerfisbundnar hleranir náinna bandamanna séu óásættanlegar. Hvorki danska leyniþjónustan, FE, né sú bandaríska, NSA, hafa tjáð sig um uppljóstranir fjölmiðlanna.
Uppljóstrarinn Edward Snowden sakar forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, um að tengjast málinu en hann var varaforseti Bandaríkjanna, þegar eftirlitið stóð yfir.