Útlit fyrir þriðju smitbylgjuna í Bretlandi

Frá Bretlandi. Þar hefur kórónuveirusmitum fjölgað undanfarið.
Frá Bretlandi. Þar hefur kórónuveirusmitum fjölgað undanfarið. AFP

Merki eru um að þriðja bylgja kórónuveirusmita sé hafin í Bretlandi, að sögn vísindamanns sem starfar sem ráðgjafi ríkisstjórnar landsins. Hann telur að þriðja bylgjan sé jafnvel þegar komin af stað og þó að ný smit séu „tiltölulega fá“ hafi indverska abrigðið valdið „veldisvexti“ í smitfjölda.

BBC greinir frá.

Vísindamaðurinn heitir Ravi Gupta og er prófessor við Cambridge-háskóla. Hann telur að fresta eigi áætlun bresku ríkisstjórnarinnar um að binda endi á allar sóttvarnareglur 21. júní.

George Eustice umhverfisráðherra segir að ríkisstjórnin geti ekki útilokað að tafir verði á fyrrnefndri áætlun. 

3.000 ný smit fimm daga í röð

Í gær greindust fleiri en 3.000 ný kórónuveirusmit í Bretlandi, fimmta daginn í röð. Áður höfðu svo mörg smit ekki greinst síðan 12. apríl síðastliðinn. 

Spurður hvort þriðja bylgja kórónuveirusmita væri þegar hafin í Bretlandi sagði Gupta: „Já, það hefur orðið veldisvöxtur í nýjum smitum og að minnsta kosti þrír fjórðu þeirra eru af indverska afbrigðinu. Auðvitað eru smit tiltölulega fá sem stendur. Allar bylgjur hefjast með fáum smitum sem malla í bakgrunninum og breiðast svo verulega út.“

Aftur á móti segir Gupta að fjöldi bólusettra í Bretlandi myndi líklega gera það að verkum að það tæki lengri tíma fyrir þessa þriðju smitbylgju að fara af stað af alvöru. Um helmingur bresku þjóðarinnar er nú þegar fullbólusettur. Gupta segir að þetta geti gefið fólki falska öryggistilfinningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert